Nauthúsagil

 

Nauthúsagil er ein af náttúruperlum Eyjafjallasvæðisins. Það lætur ekki mikið yfir sér þegar maður nálgast það en þegar inn er komið þá tekur við alveg einstök náttúrufegurð.

Gilið er staðsett fyrir innan Stóru-Mörk á leiðinni inn í Þórsmörk. Það er skilti við veginn sem vísar veginn. Það þarf að aka yfir smá læk ef menn ætla að keyra að gil munnanum. En annars er hægt að skilja bílinn eftir við veginn og ganga að gilinu, en vanalega er lækurinn ekki farartálmi fyrir neinn.

Það er ágætis upplýsingaskilti við gilið þar sem farið er yfir sögu þess og söguna af Nauthúsabræðrum, sem er áhugaverð saga. Það tekur um það bil 20 mínútur að ganga inn gilið að fossinum sem er þar innst inni. Leiðin er ægifögur, gil veggirnir eru mosagrónir og efst hanga birkihrýslur og reynitré yfir gilbrúnina. Það þarf að feta sig inn eftir gilinu með þvi að stikkla á steinum yfir ána þar til komið er að fremri fossinum sem er um 4 metra hár með fallegum hyl fyrir neðan. Þarna þarf að klöngrast meðfram hylnum og upp með fossinum.

Þar fyrir ofan sést í seinni fossinn sem er um 20 metra hár og fellur í fallegri bunu niður í gilið. Umhverfi hans er mosagróið og birtan blandast úðanum frá fossinum sem gerir umhverfið enn magnaðra.

Þegar þarna er komið verður ekki komist lengra inn gilið og því þarf að fara sömu leið til baka.

Það er líka hægt að ganga upp úr gilinu á einum stað og halda áfram upp brekkunan fyrir ofan. Það er annar foss töluvert ofar í gilinu og um leið fæst fallegt útsýni yfir Markarfljótsaura og Stóra-Dímon að Þórólfsfelli og yfir til Tindfjallajökuls.

 

Leiðarlýsing frá Eyvindarholti Hill house og Cabins

Nauthúsagil er um 7 kílómetra frá Eyvindarholti. Vegnúmerið er 249 og vegurin Þórsmerkurvegur. Eins og áður segir þá er skilti við Þórsmerkurveginn sem vísar á Nauthúsagil.

Nauthúsagil staðsetning: GPS: 63° 40.155' -19° 51.480'

Erfiðleiki: Easy

Vegalengd: (aðra leið): 300 m

Áætlaður göngutími: 20 til 30 mínútur

Kort:

Cookie Notice

This website uses cookies to enhance your user experience. By continuing to use this website you consent to the use of cookies.

Back to top