Seljalandsfoss er fremsti foss í Seljalandsá sem á upptök sín í Hamragarða- og Seljalandsheiði. Þar rennur áin í Tröllagili sem fær nafn sitt af tröllkonunni sem bjó í Dimmakrók fyrir ofan Ásólfsskála en flutti sig yfir í Tröllagil þegar fyrst var hringt kirkjuklukkum á Ásólfsskála en um það má lesa nánar hér á eftir.
Áin fellur svo fram úr Tröllagili niður á Tröllagilsmýri sem er einstaklega fallegt svæði uppi í heiðinni, vel gróið dalverpi. Fyrir framan Tröllagilsmýri fellur áin í nokkrum fossum sem vert er að skoða og svo síðast fellur hún fram af hamrabrúninni fyrir sunnan Hamragarða. Fossinn er 62 metra hár. Meginhluti vatnsins fellur í einni bunu og má segja að hann spýtist fram af brúninni. Vestan við hann seytlar vatnið í mun smærri bunum. Umhverfi Seljalandsfoss er með ólíkindum fallegt í skjóli fjallanna með grónum brekkum og svo hamrabelti upp á brún. Fossinn sést langt að þegar ekið er austur Markarfljótsaura, fyrst sem mjótt ljóst strik á dökkum hamraveggnum en síðan sem formfagur foss.
Seljalandsfoss býður upp á það að hægt er að ganga bak við hann eða í kring um hann og virða hann fyrir sér fá öllum sjónarhornum en það gefur honum enn meiri fjölbreytileika. Það að standa bak við hann og heyra hann lemja vatnið í hylnum er magnað. Þegar þannig viðrar að úðinn frá fossinum stendur upp með klettunum fær maður líka góða sturtu þegar farið er bak við fossinn en þegar þangað er komið er allt þurrt.
Seljalandsá rennur svo stuttan spöl fram á Markarfljótsaura og sameinast Markarfljóti sem gleypir hið tæra vatn árinnar í sig.
Við Krummalæk í Kverkinni rétt við Seljalandsfoss er stundum krökkt af landsniglum með kuðungi, og er að öllum líkindum um að ræða mýrabobba (Succinea pfeifferi), og líklegt er að brekkubobba (Cepaea hortensis) megi finna uppi í grastóm í hömrunum, en hann finnst hérlendis helst undir Eyjafjöllum og í Mýrdal. Þess má einnig geta að við Seljalandsfoss hefur fundist örsmár, hvítur bobbi, týtubobbi (Carcinium tridentatum), en hvergi annars staðar á landinu.
Þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson orti kvæðið Dalvísu, en freistandi er að tengja það Hamragarðasvæðinu, þar fer hann fögrum orðum um glæsileika íslenskrar náttúru:
Fífilbrekka, gróin grund,
grösug hlíð með berjalautum,
flóatetur, fífusund,
fífilbrekka, smáragrund!
Yður hjá ég alla stund
uni bezt í sæld og þrautum,
fífilbrekka, gróin grund,
grösug hlíð með berjalautum!
Gljúfrabúi, gamli foss,
gilið mitt í klettaþröngum,
góða skarð með grasa hnoss,
gljúfrabúi, hvítur foss!
Verið hefur vel með oss,
verða mun það ennþá löngum,
gljúfrabúi, gamli foss,
gilið mitt í klettaþröngum!
Bunulækur blár og tær,
bakkafögur á í hvammi,
sólarylur, blíður blær,
bunulækur fagurtær,
yndið vekja ykkur nær
allra bezt í dalnum frammi,
bunulækur blár og tær,
bakkafögur á í hvammi!
Hnjúkafjöllin himinblá,
hamragarðar, hvítir tindar,
heyjavöllinn horfið á,
hnjúkafjöllin hvít og blá!
Skýlið öllu, helg og há,
hlífið dal, er geisa vindar,
hnjúkafjöllin himinblá,
hamragarðar, hvítir tindar!
Sæludalur, sveitin bezt!
Sólin á þig geislum helli,
snemma risin, seint þó setzt.
Sæludalur, prýðin bezt!
Þín er grundin gæðaflest,
gleðin æsku, hvíldin elli.
Sæludalur, sveitin bezt,
sólin á þig geislum helli.
Jónas Hallgrímsson
Ekið sem leið liggur um 5 kílómetra í átt að þjóðveginum að bílastæðinu við Seljalandsfoss.
Staðsetning: GPS: 63° 36.927' -19° 59.297'
Erfiðleiki: Auðvelt
Lengd gönguleiðar: Um 900 metrar í heildina ef farið er að Gljúfrabúa
Áætlaður göngutími: 20 til 30 mín.
Cookie Notice
This website uses cookies to enhance your user experience. By continuing to use this website you consent to the use of cookies.