Skógafoss er af mörgum talinn einn af fegurstu fossum landsins og þótt víðar væri leitað. Hann fellur af fornum sjávarhömrum vestan Skóga, úr Skógá sem á upptök sín annars vegar undan Eyjafjallajökli fyrir neðan Fimmvörðuháls og hins vegar vestasta hluta Mýrdalsjökuls. Báðar þessar kvíslar eru bergvatnsár en í miklum leysingum taka þær á sig mynd móbrúnna jökulvatna. Milli þessara kvísla heitir Landnorðurstungur, fremur hrjóstrugar beitilendur. Við Kambfjöll sameinast þessar kvíslar og úr verður ein á Skógá. Í ána renna einnig lindir og litlir lækir.
Áin rennur svo eftir Skógárgili meðfram Hornfelli og síðan út úr gilinu skammt fyrir neðan Hornfell og endar svo á að steypast fram af heiðarbrúninni vestan Fosstorfu í þeim fræga fossi Skógafossi. Þess má geta að telja má á þriðja tug fossa í Skógárgili, marga ægifagra og heillandi, suma litla og margbrotna, aðra háa og tignarlega.
Þar sem Skógá kemur fram á heiðarbrúnina rennur áin á hörðu berglagi og dreifist vatnið mjög jafnt um farveginn sem skapar einstaklega formfagran foss þar sem það fellur niður á jafnsléttu 62 metra. Fossinn er um 15 metra breiður en vestan megin við miðju fossins myndast smá rauf í fossinn sem brýtur hann svolítið upp. Þegar mikið er í ánni þá hverfur þessi rauf og fossinn verður samfelldur.
Skógafoss á fáa sína líka, ekki síst fyrir það hvað auðvelt er að nálgast hann og virða hann fyrir sér þar sem maður stendur fyrir framan hann og það er magnþrungið að standa rétt við hylinn og horfa upp eftir fossinum og finna fyrir hversu lítill maður er í samanburði við náttúruöflin. Umhverfi fossins er einnig fallegt, móbergshamrar til beggja hliða þar sem fýllinn hefur tekið sér bólfestu í úðanum frá fossinum og svo grónar og grösugar brekkur.
Mjög gjarnan þegar sólar nýtur við má sjá regnboga við fossinn og segir sagan að þá glampi á gull Þrasa landnámsmanns í Skógum en sagan segir einnig að Þrasi hafi komið gullkistu sinni fyrir undir fossinum. En um það má lesa betur í þeirri sögu sem segir frá þeim atburðum. En hvort sem kistan er þar eða ekki þá gefur regnboginn fossinum enn meiri tign.
Ekki er fossinn síðri á veturna þegar áin er yfirleitt vatnsminni. Þá verður hann slitróttari og fleiri skörð kom í hann sem gefur honum nýja mynd og ekki skemmir fyrir ef umhverfið klæðist vetrarbúningi við það tilefni.
Skógá rennur svo áfram frá fossinum niður með Drangshlíðarfjalli og Skóganúp, og meðfram sandöldu Skógasands niður til sjávar.
Ekið er austur þjóðveginn frá Eyvindarholti að Skógum. Það fer ekki framhjá neinum hvar fossin er þegar þangað er komið. Það erum um 30 mín. akstur frá Eyvindarholti að Skógum.
Skógafoss staðsetning: 63° 31.883' -19° 30.743'
Erfiðleiki: Auðvelt
Vegalengd: Það tekur ekki nema svona 5 mínútur að ganga að fossinum
Áætlaður göngutími: Um það bil 5 mínútur.
Cookie Notice
This website uses cookies to enhance your user experience. By continuing to use this website you consent to the use of cookies.