Jarðfræði svæðisins


Eyjafjöll eru eitt af þeim svæðum á Suðurlandi sem hefur upp að bjóða mikinn fjölbreytileika hvað jarðfræði snertir. Þar rís tignarlegur Eyjafjallajökull, 1666 metra hár upp af flatlendi Suðurlands svo sjá má langt að. Í jöklinum býr stór en kannski lítt þekkt megineldstöð sem gaus síðast á 19. öld. Svæðið er annars mótað af miklum umbrotum í gegnum jarðsöguna og má þar finna fjölbreyttar jarðmyndanir.

Þó er óhætt að segja að Eyjafjöll séu að mestu úr móbergi. Móberg myndast við mikinn þrýsting svo sem þegar gýs neðansjávar eða undir jökli. En einnig má finna eldvörp frá sögulegum tíma þar sem gosið hefur og hraun runnið.

Töluvert er af jarðhita undir Fjöllunum og hefur hann í auknum mæli verið nýttur til betri lífsgæða undanfarin ár.

Þá hafa jökulhlaup mótað landið á Skógasandi og Markarfljótsaurum en stórt hamfarahlaup ruddi sér fram Markarfljótsaura um 600 árum fyrir landnám. Í Landeyjum má finna í jörðu trjástofna sem liggja eftir straumstefnu frá hlaupi fram Markarfljótsaura. Fram Sólheimasand hefur Katla eða Goðabunga spúið fram afurðum sínum annað veifið. Telja má víst að jarðfræðilega séu Eyjafjöll að minnsta kosti 700 þúsund ára sem er kannski ekki langur tími í jarðsögunni, en dauðlegum er erfitt að gera sér það í hugarlund. En eins og Jón Jónsson segir í bók sinni, Eyjafjöll drög að jarðfræði:

Eyjafjöll eru, frá grunni, upp byggð sem árangur af aldalangri eldvirkni. Ekki er vitað hvenær hún hófst, en út frá segulmælingum Leós Kristjánssonar (1988) sýnist ljóst að í gangi var sú virkni fyrir meira en 0,7 milljónum ára, en enginn veit hvað lengi hún hafði þá varað, en frá því hefur haldist hvoru-veifi fram eftir nútíma og loks náð að teygja sig inn á svið sögunnar.” (Jón Jónsson, 1998)

Frá Seljalandsmúla norður að Gigjökli


Vestast mótast landið af Markarfljóti en þar hafa geyst fram jökulhlaup í gegnum árþúsundin, það síðasta þegar gaus í Eyjafjallajökli á jólaföstu 1821.

Þegar horft er til austurs frá Markarfljótsaurum þá blasir Seljalandsmúli við með Kverkinni og norðan hennar Seljalandsfoss og Gljúfurárfoss eða Gljúfrabúi. Á þessu svæði er móberg ráðandi en bak við Seljalandsfoss má finna jökulberg og einnig er þar að finna slettur af því hrauni sem eitt sinn rann niður heiðina milli Gljúfurár og Seljalandsár frá eldstöð í Hornfelli í Stóradalsheiði. Hraun þetta nefnist Hamragarðahraun. Það hraunlag liggur efst á brúninni en milli þess og móbergsins sem liggur neðst er kubbabergslag. Móberg er svo ríkjandi áfram vestur að Kattarnefi vestan Gljúfurár. Markarfljót rann þarna við túnfótinn í Hamragörðum frá um 1645 og fram á síðustu öld, það rann jafnvel austur í Holtsós.

Þarna opnast útsýni fyrir Stóradal og við himin ber Fagrafell, 381 metra hár móbergshnúkur. Móberg er svo uppistaðan í Dalsás en ofan á honum liggur kubbabergslag allt norður að Syðstumerkurá. Á þessum slóðum er mikið um lindir sem spretta fram úr fjallshlíðunum og er talað um lindarbelti en vatn þetta virðist spretta fram milli jarðlaga. Upp af Dalsásnum sker Mjóidalur landið en í þeim dal má einnig finna miklar lindir sem síðan renna saman í Stóradalsá. Austan dalsins er móberg. Ankaramíthraun hefur runnið þarna frá Miðhöfða austan frá niður að fjallsbrúninni ofan við Efraholt. En þar í fjallsbrúninni má einnig finna bólstraberg.

Svæðið milli Ljósár og Stórumerkurár, þar sem Merkurbæirnir standa, er sambland af hraunhólum og jökulurð. En á þessu svæði hefur runnið hlýindaskeiðshraun í um eins kilómetra breiðri rás eða fossi en um það segir Jón Jónsson:

Að vestan hverfur þetta hraun undir sandeyrar Markarfljóts. Jökulurðir og jökulrákaðar klappir á hrauninu sýna, svo vart verður um deilt, að á síðasta jökulskeiði hefur jökull yfir það gengið. (Jón Jónsson, 1998)

Frá Merkurnesi að Gígjökli


Syðsta-Mörk stendur sunnan áðurnefnds hraunbeltis, Mið-Mörk á því miðju og Stóra-Mörk á móbergi norðan við það.

Fyrir innan Stóru-Mörk er Nauthúsagil grafið inn í móberg neðst en að ofan kubbaberg og efst í brúninni hangir hlýindaskeiðshraun fram á brúnina. Þessi sama samsetning af jarðlögum heldur áfram inn eftir Merkurnesi (Langanesi) og inn fyrir Innra-Akstaðagil. Á þessu svæði hefur orðið mikið rof af völdum vatns og vinda og móbergið því mikið skorið í gil og skorninga en þar sem kubba- og bólstrabergið er ráðandi hefur rofið ekki komist í gegn og skilið eftir sig hinar ýmsu kynjamyndir sé í horft, í senn tilkomumikið og dulúðlegt landslag sem ber að skoða vel, en í því sambandi má nefna Nauthúsagil, Merkurker, sem Sauðá fellur fram úr, og einnig má nefna Fremra-Grýtugil en þar má finna fjárrétt Merkurbænda og foss sem hægt er að ganga bak við.

Svipaðar jarðmyndanir má svo finna inn að Gígjökli eða Falljökli þar sem veðrað móberg ræður ríkjum en hraun frá hlýindaskeiði hangir fram á brún.

Í samantekt sinni um þetta svæði segir Jón Jónsson:

Alla leiðina frá Hamragörðum norður og austur um til Jöldusteins hefur hvergi fundist gamalt berg en aðeins þetta unglega móberg, kubba- og bólstraberg. Inni í þessu hafa þó fundist a.m.k. tvö jökulberglög, sem rýmilega þýðir að tvö jökulskeið fyrir það síðasta hafa yfir þetta svæði gengið. Því virðist sem norðurveggir þessa mikla fjallasals séu eitthvað síðar byggðir en þeir að sunnanverðu. (Jón Jónsson, 1998)

Frá Gígjökli að Goðalandi


Á þessum slóðum eru afréttir sem kallast Steinsholt og Stakkholt. Þar er aðallega að finna móberg en á stöku stað blágrýti og basalt. Á Stakkholti er að finna Stakkholtsgjá, mikið gljúfur með móbergsveggi á báða vegu. Innst verður gljúfrið að þröngu gili eða gjá og þar fellur bergvatnsfoss niður í botni gilsins. Þarna er landslag hrikalegt og sérstaklega fagurt, jafnt sumar sem vetur. Á hálfgrónum melunum fyrir framan Steinsholt má sjá heljarmikil björg á víð og dreif um svæðið. Þessi björg hlupu fram í geysimiklu hlaupi þegar mikið berghrun átti sér stað í Innstahaus í ársbyrjun 1967. Þetta hrun olli því að mikið hlaup vatns, ís og bergs hljóp þar fram í farveg Markarfljóts og áfram eftir honum til sjávar. Alls er talið að um hafi verið að ræða 15 milljónir rúmmetra af bergi og nokkrar milljónir rúmmetra af jökulís.

 

Goðaland


Goðaland nefnist landsvæðið frá Hvanngili sunnan Krossár austur að Múlatungum við Mýrdalsjökul. Fremst á Goðalandi rís Réttarfell, móbergsfell með blágrýtishettu. Frá Réttarfelli teygir sig háls sem endar í Útigönguhöfða, 804 metra háum. Á þessu svæði er móberg uppistaðan í bergmyndunum en finna má blágrýti, ankaramít, kubbaberg og bólstraberg á stöku stað. Á þessu svæði má einnig finna gosberg sem nefnt er ignimrit. Þetta berg er talið ættað frá Tindfjöllum en um þetta segir í Drög að jarðfræði Eyjafjalla:

Þetta er gosberg orðið til í miklu sprengigosi sama eðlis og hér að framan er lýst úr Skógaheiði. Gos þetta varð í Tindfjöllum og virðist hafa verið ekki ósvipað því mikla gosi sem varð í Mount st. Helens í Bandaríkjunum 1980. Í Tindfjöllum má ennþá sjá örið eftir það sár, sem fjallið hlaut er það, að hluta til, flaug í loft upp, tætti alla austurhliðina sundur og þeytti austur eftir hlíðinni í skýi úr glóandi eimyrju, en nokkur hluti fjallsins hrapaði inn í sjáft sig og svo er það enn. Efnið úr þessari risa sprengingu má svo rekja austur eftir Réttarfelli að norðan og það tekur yfir stórt svæði í Þórsmörk. (Jón Jónsson, 1998)

Í áðurnefndu Réttarfelli er að norðan Álfakirkja, fallega mótaður klettahöfði sem er ekki ósvipaður kirkju í útliti, og í honum sérkennilegar klettamyndir. Á þessum slóðum er móbergið mikið skorið og gil fallega mótuð og gróin. Hattarnir tveir, móbergsstapar sem rísa upp yfir Básum, setja einnig svip sinn á landslagið. Í um 700 mera hæð er svo Morinsheiði, nokkuð stórt svæði, alveg flatt að ofan en allt um kring klettaveggur með bröttum hlíðum. Efst á Morinsheiði er hraunlag frá hlýindaskeiði sem veðrast ekki eins vel og móbergið undir og stenst því betur tímans tönn. Fyrir innan Morinsheiði er líkt og framar móberg sem veður og náttúra hafa mótað í gil og gljúfur af hjartans list.

 

Heiðarlönd frá Gígjökli að Miðskálaegg


Uppi í heiðinni á þessu svæði frá Seljalandi að Gígjökli (Falljökli) má finna þó nokkrar eldstöðvar og sprungubelti. Þegar er komið vestan að og horft upp á jökulinn af þjóðveginum má sjá klettabelti ganga upp eftir jöklinum að norðvestanverðu, sérstaklega er þetta áberandi þegar líður á sumarið og vetrarsnjórinn að mestu bráðnaður af jöklinum. Þetta klettabelti nefnast Sker eða Skerin og eru forn eldstöð sem flokka má sem sprungubelti en það nær niður að fjallsbrúninni við Kaplaskarðsjökul og upp að gígbarminum á toppi Eyjafjallajökuls.

Á þessu svæði frá jökulrönd niður að fjallsbrúnum er uppistaðan hraun frá hlýskeiðum fyrir síðasta jökulskeið, flest að ætla má komin frá toppgíg fjallsins, þó einhver komin annars staðar frá. Í því sambandi má nefna Rauðhaus sem er allmikill gígur í Miðmerkurheiði. Úr honum mun vera komið hraun það sem runnið hefur fram og nú myndar Merkurhóla þar sem Merkurbæirnir standa. Þó skerast þar inn í eldvörp frá ýmsum tíma.

Fyrstan má þar nefna gíginn Rauðahraun sem er allstór gígur í um 625 metra hæð, áberandi þar sem hann rís upp úr heiðinni fyrir ofan Syðstumörk. Gígurinn er að mestu úr gjalli, hraunflygsum, grófri gosmöl og vikri. Hann er opinn til austurs og úr honum hefur runnið hraun, fyrst til austurs en síðan vesturs, niður heiðina, niður með Kambagili og ber hraunið nafn þess, Kambagilshraun. Smá rani úr hrauninu teygir sig reyndar til suðurs en hefur runnið skamman veg.

 

Dagmálafjall og Tröllagilsmýri


Rétt sunnan við Rauðahraun er fjallgarður sem liggur í austur-vestur, um fimm kílómetra langur, mjög áberandi og sker sig úr flatri heiðinni í kring. Glöggt má sjá þennan fjallgarð þegar ekið er í átt að Fjöllunum vestan frá. Fremst heitir þessi hryggur Hornfell, þá Arnargilshryggur, næst Litla-Dagmálafjall og efst Stóra-Dagmálafjall, 975 metrar að hæð. Á þessum hrygg hefur gosið allvíða og hann hlaðist upp úr föstum gosefnum eins og grófu gjalli, hraunflygsum og kleprum og síðast en ekki síst úr bombum.

Ekki er hægt að greina hraunrennsli frá þessum hrygg að neinu marki nema frá neðsta hluta hans, Hornfelli, en þar hefur gosið á nútíma og hraun runnið fram Hamragarðaheiði, suður á Tröllagilsmýri, sem er töluvert flatlendi í heiðinni, suður að Stórhöfða. Þá hefur það runnið til vesturs og fram á milli Gljúfurár og Seljalandsár. Ber það hraun nafn heiðarinnar og nefnist Hamragarðahraun eins og áður er getið um. Tröllagilsmýri er eins og áður segir töluvert flatlendi í miðri Hamragarðaheiði. Þetta er gróið svæði og mjög fallegt og tilkomumikið. Í jaðri mýrarinnar rennur Seljalandsá. Í botni Tröllagilsmýrar hækkar landið mikið. Þar skerst gil niður í landið þar sem vatnið hefur mulið móbergið niður. Í þessu gili er einnig að finna miklar bólstrabergsmyndanir sem setja töluverðan svip á umhverfið.

Ofarlega í gilinu má finna mjög sérkennilegan og fallegan helli í bólstraberginu. Hann er rúmlega tveggja metra hár og meira en einn metri í þvermál. Hellir þessi er að innan þakin glansandi gleri og segir Jón Jónsson um þennan helli:

Veggirnir eru úr 10-15 cm þykku þéttu, lagskiptu hrauni í lögum, sem minna á árshringi í tré, en innsta lagið er grængráleitt glansandi gler. Þessi myndun er talin vera til komin sem hraunkviku- og síðar gasrás í bólstraberginu. Paradísarhellir er í bólstrabergsmyndun og ekki þykir ólíklegt að hann sé til orðinn á þennan hátt. (Jón Jónsson, 1998)

Fyrir ofan Tröllagilsmýri og Tröllagil er landið að mestu þakið hlýindaskeiðshrauni allt austur að Steinafjalli. Þarna skera þó nokkur sprungubelti landslagið og neðar í heiðunum er uppistaðan móberg.

Vestan Tröllagilsmýrar rís upp úr landinu höfði mikill og þverhníptur vestan til með um 60 til 80 metra háum hömrum. Höfði þessi nefnist Stórhöfði og er um 550 metra hár. Í þessum hamravegg má finna stuðlaberg, ankaramít og neðst má sjá dökkt berg sem mun vera ummyndað móberg. Segir Jón Jónsson þetta um Stórhöfða og tilvist hans:

Niðurstaðan verður sú að Stórhöfði sé leifar af eldstöð, sem trúlegt þykir að verið hafi virk, líklega snemma, á hlýskeiðinu næst fyrir síðasta jökulskeið og gæti því verið 140-160 þúsund ára. Það virðist hafa fallið í nær samfelldum straumi suður fjallið. (Jón Jónsson, 1998)

Hraun sem runnið hefur þarna til suðurs er ankaramít sem endar við hamrabrúnina fyrir ofan bæinn Fit.

Rétt austan Stórhöfða er mikil eldstöð sem Bláfell heitir 695, metrar yfir sjávarmáli. Gígurinn er stór og rís fjallið hátt upp úr landslaginu á þessum slóðum. Bláfell er aðallega úr gosösku, gjalli og misgrófri gosmöl.

 

Frá Hvammi að Miðskálaegg


Svæðið þarna austur af er að mestu hraun frá hlýindaskeiði. Þó má inn á milli finna ankaramíthraun en eitt slíkt sést greinilega á fjallsbrúninni fyrir ofan Hvamm. Uppi á heiðinni fyrir ofan Hvamm er svo að finna lítinn gígtappa sem Smyrill heitir. Hann er nokkuð áberandi þegar horft er austan að yfir bæina á Núpi.

Hvammsnúpur og hamrarnir og hamrabrúnin fyrir ofan Núpsbæina er að langmestu leyti úr móbergi. Fyrir framan Hvammsnúp niður við flatlendið eru litlir klettar sem nefnast því skrýtna nafni Pöst, sem er samheiti fyrir tvo kletta, Litla-Past og Stóra-Past. þessir klettar eru úr ankaramíti og í þá hafa verið boltaðar klifurleiðir enda bergið fast í sér og hentar vel til klettaklifurs.

Móbergið nær svo nær samfleytt frá Núpi og austur að Ásólfsskála. Írá hefur grafið sig niður í gegnum móbergið þar sem hún rennur niður eftir dalverpi sem kallast Krókur. Efst á fjallsbrúninni rennur áin fram af háum klettum úr harðara bergi, jökulbergi sem liggur ofan á og vatnið hefur ekki náð að éta í sundur. Þarna er fallegur foss sem nefnist Hestafoss, breiður og hár og sést vel frá þjóðveginum. Undir jökulberginu er svo móberg. Nokkru ofan við Hestafoss er síðan þykkt lag af ankaramíti á svæði sem nefnist Hálsar. Á Hálsum má finna hvalbök þar sem jökull hefur skriðið yfir berg og sorfið það til. Annað klettabelti úr harðara bergi en móbergi liggur þar sem Írá fellur fram af niður á flatlendið. Þetta klettabelti er úr grágrýti og má einnig sjá fyrir ofan bæinn Ysta-Skála.

 

Frá Miðskálaegg að Steinafjalli


Dalurinn ofan Ásólfsskála, þar sem Miðskálaá rennur í djúpu, þröngu gili, er að mestu úr móbergi. Dalur þessi afmarkast til vesturs af hárri egg sem heitir Miðskálaegg og er um 600 metrar á hæð. Norður og vestur af Miðskálaegg eru Skollahausar en þar má sjá leifar af gömlu eldvarpi en þar er mikið af gjalli og gosmöl. Þarna skammt austar, beint norður af Miðskálaegg er annað eldvarp sem nefnist Þríhyrningur en henni lýsir Jón Jónson á þennan hátt:

Norðaustan við norðurenda Miðskálaeggjar rís, á dalbrún, lítil en harla sérstæð hamragirðing, sem nefnist Þríhyrningur, en hann er leifar af eldvarpi, sem mjög fróðlegt er að skoða, því þess líkar eru sjaldgæfir. Þetta er efsti hlutinn af gosrás og sýnir einkar vel hvernig hún er upp byggð. Að utanverðu eru lóðréttir hamrar byggðir úr lárétt liggjandi stuðlum. Endar stuðlanna, sem út standa eru gleraðir (með tachylit húð). Stuðlarnir eru, að jafnaði, 1,5-2 m langir, þ.e.a.s. sú er þykkt veggjarins. Hamrarnir, sem þannig eru byggðir eru, að sunnanverðu 20-30 m háir, lóðréttir bæði að innan sem utan og mynda eins konar hringlaga múr um, af rauðu gjalli, bergbrotum og bombum fyllta gosrás. Skörð eru í múrinn, en líklegt er að hann hafi orðið að láta undan tönn tímans. Þvermál gígsins að innanverðu er 25-30 m eftir því hvar mælt er. Þunn hraunbrík gengur um gíginn þveran nálægt miðju, en lítið sést af henni upp úr gjallinu. (Jón Jónsson, 1998)

Nokkru norðan við Þríhyrning eru svo tveir klettar úr ankaramíti sem skera sig úr landslaginu í kring. Í dalnum sem Miðskálaá rennur í er móberg uppistaðan en þegar ofar dregur tekur við basalt og þá kubbaberg.

Austan dalsins heitir Ásólfsskálaegg. Efst er egg þessi úr ankaramít-

hraunum, þar fyrir neðan basalthraun með jökulbergi á stöku stað. Neðst, austan Moldnúps og Fosslækjar, eru miklir klettar sem nefnast Brattskjól. Þessir klettar eru samspil gosbergs og jökulbergs með móbergi og bólstrabergi en einnig er þarna að finna ankaramít og stuðlaberg úr blágrýti. Ef haldið er inn eftir Holtsárdal má þar sjá hamra sem brjótast út úr Holtsnúp innarlega í um 400 metra hæð. Þessir hamrar nefnast Svarthamrar og er nafngiftin vafalaust kominn frá lit bergsins í hömrunum. Hamrar þessir eru úr basalti. Annars ráða móbergsmyndanir þarna ríkjum. Framarlega í hömrum þessum er gat stórt og mikið og heitir það Gerðugat.

 

Steinafjall og Lambafell


Nyrst á Steinafjalli heitir Kolbeinsskarð sem er mjór hryggur, með Holtsárdal til vesturs og Steinatungur og Svaðbælisá til austurs. Steinafjall er 809 metrar á hæð þar sem það er hæst og nefnist þar Leynir sem er gömul eldstöð en frá henni hefur runnið hraun sem þekur fjallið að mestu að ofan. Steinafjall er að uppistöðu úr móbergi. Vestast á fjallinu heitir Holtsnúpur, hár og brattur hryggur með basalti efst á brúninni fremst en innar úr hrauni frá hlýindaskeiði og ankaramíti á stöku stað. Balsalt má svo finna í fjallinu að sunnanverðu í bland við móbergið. Fyrir sunnan fjallið, við Holtsós, stendur klettastapi sem nefnist Arnarhóll og er gerður úr ankaramíti. Austast rís svo Núpakotsnúpur upp í um 700 metra hæð, brattur og tilkomumikill. Frá Núpakotsnúp að sunnan og norður eftir fjallinu að austan er basalt ásamt ankaramíti uppistaðan í fjallinu. Nyrst að austanverðu má svo sjá tvo ganga en annar þeirra hefur stefnuna á toppgíg fjallsins, Leyni. Austan við Kolbeinsskarð í Steinatungum má sjá eldri bergmyndanir. Segir Jón Jónsson svo um þær:

Þar hefur fjallshlíðin rofist gegnum hraunlögin djúpt inn í fjallið. Kemur þar í ljós eldri bergmyndun með leifar af fornu eldvarpi með fjölda ganga og æða í allar áttir, rauðamöl, gjall, bombur og hraunflygsur. Ummyndunin er þar talsverð. Ljóst þykir að þarna sé komið inn í eldri innviðu megin eldstöðvarinnar, Eyjafjallaeldstöðvarinnar. (Jón Jónsson, 1998)

Á þessu svæði eru gil mikil sem þverár Svaðbælisár hafa skorið niður í gegnum bergið. Í þessum giljum má sjá hvernig yngra haun hefur runnið yfir eldri jarðmyndanir. Áin sem kemur fram úr Steinatungum ber með sér kalksteinsmola en um þá segir í riti Jóns Jónssonar, Drög að jarðfræði Eyjafjalla:

Skáldið Guðmundur Magnússon (Jón Trausti) dvaldi um tíma á Þorvaldseyri, líklega þegar hann vann að sögunni um Önnu frá Stóruborg. Hann veitti þessum hvítu steinum athygli og hugði þá vera komna úr marmara, sem því væri líklega að finna í fjallinu. Ekki er sú hugmynd bær, heldur eru molarnir holu- og/eða sprungufyllingar, en eru eigi að síður vitni um það að þar er komið í eldri bergmyndanir, sem tilheyra innviðu megineldstöðvarinnar. Litlu austar upp við jökulröndina er nokkuð áberandi haus sem nefnist Fellshaus í um 1000 metra hæð. Haus þessi er úr basalti. (Jón Jónsson, 1998)

Yngri hraunlög ná langt niður á Múla en það nefnist raninn sem teygir sig þarna niður á sléttlendið. Neðst í múlanum er sandsteinn en ofan á honum má finna bólstraberg sem síðan verður að kubbabergi. Austan í Múla eru tvö gil, annað Stöðvargil en hitt Merkigil. Í Stöðvargili er jarðhita að finna og þar boruðu bændur á Þorvalseyri eftir heitu vatni með góðum árangri. Þar rennur upp úr holunni 2,5 l/sek. af 60°C heitu vatni. Jarðhita er einnig að finna í Merkigili þar sem um 10°C vatn streymir fram.

 

Austan við áðurnefnd gil teygir sig fram á láglendið háls sem skilur að Svaðbælisá og Laugará. Háls þessi endar í felli sem heitir Lambafell og er um 200 metra hátt. Fellið er úr svokölluðu þursabergi með blágrýtishettu að suðaustanverðu. Lambafell er að mati Jóns Jónssonar forn eldstöð frá fyrri hluta síðasta jökulskeiðs.

 

Seljavellir og Rauðafell


Næst er komið að Seljavöllum og dalnum sem Raufarfell (Bjarnarfell) og Lambafell og Lambafellsháls mynda. Eftir dalnum rennur Laugará, kennd við heitar laugar sem spretta fram úr berginu fyrir innan Seljavallalaug hina eldri. Þessar heitu uppsprettur eru hreint stórkostlegar þar sem þær spýtast út úr hamraveggnum á mörgum stöðum. En úr uppsprettum á þessu svæði kemur vatn í báðar Seljavallalaugarnar. Eitthvað sem allir ættu að skoða. Annars er það mikilfengleg hamraborg sem gleður augað. Um hana segir Jón Jónsson:

 

Skammt innan við Seljavelli tekur fjallsbrúnin á sig mikinn svip í stórkostlegri hamraborg, sem Svarthamrar nefnist. Auðsýnilega er ekki um hraun að ræða heldur stórt innskot, sem best sést ofan við hamrana þar sem innskots- berg og móberg mætast. Neðst í hömrunum er, á kafla, fallegt stuðlaberg. (Jón Jónsson, 1998)

 

Fyrir innan heitu lindirnar er gil Laugarár en hún fellur fram úr djúpu, þröngu gili. Austan við gilið er svo dalbotninn gilskorinn. Þarna er um að ræða margbreytilegt gangakerfi og setlög úr föstum gosefnum ásamt innskotum. Á þessu svæði og fram á Raufarfell (Bjarnarfell) og Rauðafell að Fagradal má finna eldri bergmyndanir sem tilheyra rótum megineldstöðvarinnar, Eyjafjallajökuls. Í Rauðafellsheiði þar sem Svíná fellur fram má finna fornt gjóskuberg á kafla og upp af því svæði eilítið norðar er svæði með háhitamyndunum en töluverðan jarðhita má finna í Kaldaklifsárgili og Tungugili í Rauðafellstungum.

Að framan eru Raufarfell (Bjarnarfell) og Rauðafell móberg að mestu en þar má einnig sjá á stöku stað innskot, svo sem í Fagradal þar sem stór innskotsklettur rís upp úr mikilli skriðu í suðurhlíð dalsins.

Kaldaklifsárgil sker heiðina austan Rauðafells alveg upp að jökli. Þetta er mikið gil og það djúpt að áin fellur án fossa fram frá jökli og til sjávar. Gilið skilur á milli tveggja jarðmyndana: annars vegar vestan megin gilsins þar sem eldri jarðmyndanir ráða ríkjum en hins vegar austan megin þar sem móbergsmyndanir eru allsráðandi.

 

Drangshlíðarfjall og Hrútafell


Síðasta fjallið sem sker sig út úr fjallgarðinum er Drangshlíðarfjall og Hrútafell. Bæði fjöllin eru móbergsmyndun, að minnsta kosti 200 þúsund ára eða frá næstsíðasta jökulskeiði. Þrjá gíga má greina á fjallinu, þann greinilegasta norðan við Skóganúp en þar er dalur nokkur sem nefnist Melrakkadalur, annar gígur er norðan við topp fjallsins og hefur gos úr honum náð upp úr jökli og þar er basalt hetta á fjallinu, þriðji gígurinn er nokkru vestan við toppinn.

Af Drangshlíðarfjalli er útsýni mjög fagurt til allra átta og þangað er auðvelt upp að komast.

 

Frá Kaldaklifsárgili að Skógá


Þegar komið er austur fyrir Skóganúp breytir landið mjög um svip, landslagið verður opnara og þeir háu klettar og fjöll sem einkenna Fjöllin eru ekki lengur til staðar. Nú tekur við um 100 metra há brekka með klettum á stöku stað.Uppistaðan er móberg en finna má kubbaberg og aðrar bergtegundir á stöku stað. Upp af brekkubrúninni hækkar landið jafnt og stöðugt 12 kílómetra leið upp að jökulrótum Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls. Frá Kaldaklifsárgili austur að Hornfelli, sem teygir sig niður með Skógá að vestanverðu, er uppistaðan móberg, þó að undanskildum Hólatungum upp við jökulrætur en þar má finna eldri jarðmyndanir sem tilheyra megineldstöðinni. Efst á Hornfelli er Hornfellsnípa, um 500 metra há, sem er töluvert áberandi þar sem hún rís beitt upp úr heiðinni. Þar er vestari endi gossprungu sem teygir sig í stefnuna austur-vestur að Fjallsgili við Skógafjall.

 

Kambfjöll og Fimmvörðuháls


Áðurnefnd gossprunga heitir Kambfjöll en hana má sjá greinilega í heiðinni. Við Kambfjöll er mikill munur á veðri og snjóalögum að vetri. Neðan þeirra er oftast frekar lítill snjór en ofan þeirra eru snjóalög oft miklu meiri. Frá þessari gossprungu hefur runnið hraun á hlýindaskeiði niður heiðina, niður að um það bil 200 metra hæðarlínu. Ofan 200 metra er blágrýti uppistaðan, allt upp á Fimmvörðuháls en neðan 200 metra hæðar er móberg allsráðandi.

Á Fimmvörðuhálsi, sem er í um 1100 metra hæð, er land mjög hrjóstrugt og varla stingandi strá að finna, enda hálsinn í mikilli hæð og algjört veðravíti á vetrum og koma hvellir stundum á sumrum líka.

Austast á hálsinum, austur undir Mýrdalsjökli, má finna bólstraberg koma undan jöklinum. Þar er einnig röð gíga sem gosið hafa ankaramíthrauni en gígarnir eru úr gjalli, rauðamöl og bombum. Annars skiptast þarna á blágrýti og móberg. Nokkru neðan við Fimmvörðuháls í um 800 metra hæð er svo annað sprungubelti svipað Kambfjöllum en heldur styttra og má sjá það greinilega í landslaginu þar sem það rís upp úr umhverfinu í kring.

 

Frá Skógárgili austur að Dölu


Gil setja einnig nokkurn svip á landslagið á þessum slóðum. Þau skera heiðina víða. Vestast er Skógárgil en fram úr því fellur Skógá og Skógafoss, um 62 metra hár, fellur fram af brekkubrúninni. Fossinn fellur fram af harðara bergi efst á brúninni en undir er móberg. Á köflum er Skógárgil hrikalegt og margir fallegir fossar setja svip sinn á það og gaman að sjá hvernig vatnið hefur mótað farveg sinn. Skógá er bergvatnsá en upptök beggja kvísla hennar eru uppi undir jökli. Önnur kvíslin kemur frá Fimmvörðuhálsi en hin austar. Austan við Skóga er svo Kverná eða Kverna eins og áin er alltaf kölluð. Áin er frekar vatnslítil en gil hennar aftur á móti stórbrotið. Þar má sjá mikla skúlptúra frá náttúrunnar hendi, stóra klettadranga og hinar ýmsu kynjamyndir. Laufatunguárgil, sem sér Kvernu fyrir hluta af vatni hennar, er ekki síðra en Kvernugil að fegurð. Næsta gil austan Kvernu er Illagil, lítið en dulúðlegt gil en þar rennur aðeins vatn í leysingum. Austan þess er Dalárgil eða Dölugil sem er töluvert grynnra en Kvernugil en engu að síður fallegt og Dölufoss sem ekki ber mikið á, sérstaklega formfagur. Austan Dölugils er Rjúpnagil sem bæjarlækurinn í Eystri-Skógum fellur fram úr. Þetta gil er stutt og lítið en þar eru fallegar klettamyndir.

 

Hofsárgil, Þurragil og Jökulsárgil

 

Austan Eystri-Skóga tekur svo við hálfgerð kynjaveröld. Þar eru þrjú gil, hvert öðru glæsilegra og sérstakara. Fyrst Hofsárgil, í því fellur lítill lækur en gilið er fullt af fallegum klettamyndum þar sem veður og vatn hafa mótað í mjúkt móbergið listaverk náttúrunnar. Næst kemur Þurragil sem eins og nafnið ber með sér er þurrt nema í leysingum. Þetta gil er mjög fallegt þó stutt sé. Austast er svo Jökulsárgil en eins og nafnið gefur til kynna þá rann Jökulsá á Sólheimasandi eða Jökla eða Fúlilækur, eins og hún er stundum nefnd, þar á meðan Sólheimajökull lá að Hestþingshálsi en um árið 1690 geta heimildir um að áin hafi rutt sig fram sandinn þar sem hún rennur í dag. Jökulsárgil skiptir landsfjórðungum og sýslum. Vestan þess er Rangárvallasýsla en austan Vestur-Skaftafellssýsla. Gilið er opið í báða enda og eftir því rennur tær lækur, Sýslulækur, sem skiptir sýslum, en í því eru einnig nokkrar tjarnir. Gil þetta er einstakt að fegurð og ættu allir sem um svæðið fara að skoða það. Innan við Jökulsárgil er Skógafjall sem afmarkast af Fjallsá sem rennur þar í þröngu og djúpu gili. Fyrir framan Skógafjall er Litla-fjall en Gjáin aðskilur fjöllin og setur mikinn svip á landið sé upp á Litla-Fjall gengið.

 

Skógasandur og hamfarir í myndun hans


Fyrir framan brekkuna frá Skóganúp og austur að Jökulsá á Sólheimasandi að sjó er landið að mestu sandi hulið sem talinn er vera frá síðjökultíma en um sandinn segir Jón Jónsson:

Það er ennfremur ljóst að ekki varð Sólheimasandur ásamt Skógasandi til í þeim vatnavöxtum, sem Landnáma greinir frá heldur hefur sandurinn byggst upp á síðjökultíma og síðar eins og fleiri sandar á sunnanverðu landinu, en ljóst er nú að honum bættist snögglega ofanálag þegar liðin voru um 500 ár frá upphafi okkar tímatals. (Jón Jónsson, 1998)

Seinna segir Jón:

Hér er svo litið á að vikurlag þetta, með grjóti og stórbjörgum hafi orðið til við gos í vestanverðum jöklinum á þeim tíma sem aldursákvörðunin gefur eða um 470 AD. Gosinu hafi fylgt hlaup alveg hliðstætt við það sem þekkt er frá fyrsta þætti Kötluhlaupa og sem e.t.v. væru best talin aur og öskuflóð (debris flow) þar sem vatn á miklu minni hluta að en sem almennt hefur verið talið, að frá teknu því að meira eða minna smámulinn ís mundi þar hafa skipt verulegu máli. Virðist slíkt flóð hafa komið niður fjallið, líklega mest, eða eingöngu, milli Hofsárgljúfurs og Skógafjalls. Athyglisvert er að á því svæði er aðeins þunnur jarðvegur, en vestan Hofsár eru allþykkar jarðvegstorfur. Þetta þykir benda til þess að hlaupið hafir sorfið burt þann jarðveg, sem væntanlega hefur verið á svæðinu austan - ekki síður en vestan Hofsárgils. Allt bendir til að þetta hlaup hafi verið með ósköpum. Lagið má rekja niður eftir öllum Skógasandi, en það þynnist þó mjög niður eftir. (Jón Jónsson, 1998)

Af þessu má ljóst vera að yfir svæðið hafi gengið miklar náttúruhamfarir en á þessum slóðum er nú eitt fallegasta og ósnortnasta svæði Eyjafjallasveitanna þar sem gróður er mikill og fjölbreyttur og grösug og stórbrotin gil, Sólheimajökull, Jökulsáraurar og sandarnir mynda fallega fléttu náttúru og landslags.

Að síðustu skal minnst á sérstaka bergmyndun austast í Skógaheiði og ætla ég að leyfa mér að nota enn til þess orð jarðfræðingsins Jóns Jónssonar:

Berg þetta samanstendur af súrri (líparít) ösku og vikri af nokkuð mismunandi grófleik ásamt alla vega löguðum, mest smáum, bergbrotum úr sama efni. Auk þess einkennist það af misstórum, mest kúlu- eða egg-laga frauðhnyklum oft um 10 til 20 cm í þvermál, sem virðast hafa orðið þannig til að lag úr efninu, sem er gler, hefur vafist utanum sjálft sig og myndað frauðbolta, sem oft liggja í álveðna stefnu í massa úr ösku og glernálum.

Engum efa er bundið að um er að ræða eisuflóð, glóandi öskuflóð frá geysilegu sprengigosi, sem vafalaust hefur líka þeytt miklu öskumagni í loft upp, en af því sést nú ekkert á staðnum. Þetta lag er áætlað um 10-15 m þykkt víða. Að ofan er það jafnan gróf-stuðlað, sem bender til að hár hiti í því hafi verið þegar það settist til. Neðst er lag úr örfínni gulleitri ösku, eisu, og er helst svo að sjá að sem það, sem ofan á er, hafi flotið á því. (Jón Jónsson, 1998)

Seinna segir Jón:

Þetta berg kemur fyrir á nokkrum stöðum austan til í Skógaheiði. Austan frá Fjallsár vestur fyrir Hofsá, er stærsta samfellda lagið. Efst er það í Ölduhrygg, sem nær frá um 300 m hæðarlínu upp að 400 m línunni. Rétt ofan við 200 m hæðina er, á vesturbarmi Hofsárgljúfurs dálítil hæðarbunga. Úr þessari myndun og þar skammt frá og má úr því lesa stefnu flóðsins í grófum dráttum. (Jón Jónsson, 1998)

Síðar segir svo Jón um sama efni:

Þess var áður getið að frauðhnullungarnir lægju í ákveðna stefnu og að fleira í þessu bergi benti í sömu átt. Stefnan er í grófum dráttum á miðjan Mýrdalsjökul eða m.ö.o. á Kötlu. Því vaknaði sú hugmynd að eisuflóð þetta væri afleiðing fæðingarhríðar Kötlu. (Jón Jónsson, 1998)

Að síðustu um þetta segir svo:

Að ofanskráðu er ljóst að, úr staðreyndum, sem skráðar eru í berglögin á staðnum, að a.m.k. tvö jökulskeið hafa fyrir eisubergslagið gengið. (Jón Jónsson, 1998)

Það má því segja að berg þetta hafi orðið til í ólýsanlegum hamförum sem erfitt er að gera sér í hugarlund í fljótu bragði. En af þessu má sjá að landsvæði sem Eyjafjöll standa á hefur í gegnum árþúsundin mótast af miklum umbrotum og hamförum sem þrátt fyrir allt gleðja í dag augu þeirra sem um það fara og veita gleði og ánægju þeirra sem það skoða.

 

Heimildir:

Jón Jónsson, Drög að jarðfræði Eyjafjalla, 1998, Rannsóknarstofnunin Neðri Ási Hveragerði.

Jón Jónsson, Jarðfræðikort Eyjafjöll, 1988, Rannsóknarstofnunin Neðri Ási Hveragerði.

 

 

Cookie Notice

This website uses cookies to enhance your user experience. By continuing to use this website you consent to the use of cookies.

Back to top