Yfir höfuð þá ætla ég að leyfa mér að fullyrða að Eyjafjöll séu með veðursælli stöðum á landinu. Þar eins og í Mýrdal vorar mun fyrr en annarsstaðar á landinu en jöklarnir Eyjafjallajökull og Mýrdalsjökull fóstra þessar sveitir og veita þeim skjól fyrir köldum norðanvindi. Það leiðir af sér hlý og gróðursæl vor og sumur. Eyjafjöllin eru einnig nokkuð þekkt fyrir hvassviðri þó svo að það sé ekki eins algengt nú og áður var en þrem kirkjum hefur Kári blásið um koll undir Fjöllunum, öllum á prestsetrinu Holti, fyrst árið 1303, næst árið 1757 og síðast 1888. Kannski er þetta til marks um hversu vindasamt getur verið undir Eyjafjöllum. En fyrsta heimild um veðurskaða undir Fjöllunum eru frá árinu 1118 en þar segir í Konungsannál: „Þá braut veður knörr undir Eyjafjöllum og þá tók veður upp Holtavatn og bar allt á brott“. Téð Holtavatn er Holtsós.
Ekki eru þessar frásagnir sveitinni til framdráttar hvað veðursæld varðar nema síður sé. En eins og þær bera með sér þá getur orðið bálhvasst undir Fjöllunum enda auðvelt fyrir vindinn að ná sér á strik eftir giljum og dölum í skörðóttum fjallgarðinum en um það segir Þórður Tómasson í bók sinni Veðurfræði Eyfellings:
Þær andstæður eiga heima í veðurlýsingu Eyjafjalla, að þar er á köflum veðursæld meiri en víðast annarsstaðar á Íslandi en alloft meiri hvassviðri en í nágrannabyggðum. Hvortveggja er að rekja til fjallgarðsins, sem gnæfir að baki byggðinni. Djúp lægð vekur veður, sem blæs af einhverri átt. Hamrar og núpar veita því víða mótspyrnu, en framrás verður það að fá og blæs um hana með tvöföldu eða margföldu afli. Oft verður þá það, sem nefnt er byljaveður, logn nokkur andartök, jafnvel ljósbært veður og síðan stormhrina, sem allt ætlar um koll að keyra. Byljirnir geta oft dunið yfir úr gagnstæðri átt við vindáttina. Þessi veður eru hættulegust eigum manna og ferðum. Jafnvindi var aldrei eins illa þokkað, þótt afrennt gæti orðið að afli.
Bæjarstæðum undir Eyjafjöllum er misjafnlega hætt í veðrum. Á einum stað getur útnyrðingur verið verst veður, á öðrum norðanátt, þeim þriðja landnyrðingur o.s.frv. Í ströngu hafveðri getur verið logn eða því nær á einstaka bæ við fjallið. Stendur veðrið þá upp í hamrana sem sagt er. Í norðlægri átt gengur veðrið venjulega fljótt niður undir Eyjafjöllum. Á eftir getur þá farið logn og blíða mismunandi lengi, en utan og austan byggðarinnar heldur áfram að blása kuldastormur af norðri. Ferðamenn, sem komu utan yfir Markarfljót, töluðu stundum um, að það hefði verið líkt og að koma í hús, er komið var austur fyrir Seljalandsmúla. Best sæist þessi munur ef daglegar mælingar lofthita um mörg ár lægju fyrir frá byggðinni. (Þórður Tómasson)
Ég held að þessi lýsing segi svo sem allt sem segja þarf, en í bókinni Veðurfræði Eyfellings tekur Þórður Tómasson, safnstjóri í Skógum, saman mikinn fróðleik um veður og veðurmál undir Eyjafjöllum, bók sem er algjör perla þeim sem vilja læra gömul alþýðufræði um veður og veðurmál.
Eins og ég get um áður þá er það orðið mjög fátítt í dag að ofsastormur geysi undir Fjöllunum en með breyttu veðurfari síðustu ár hefur dregið úr slíkum veðrum.
Þessari veðursæld sem Eyjafjöllin búa yfir fylgir nokkur úrkoma en allir Eyfellingar kannast við síðdegisskúrir á góðum degi þegar loft sem skellur á fjöllunum stígur hratt upp og þéttist.
En þó svo að á láglendi ríki mikil veðursæld þá þarf ekki að leita langt til að finna eitt af veðravítum landsins, Fimmvörðuháls en um hann liggur einmitt ein vinsælasta gönguleið landsins frá Skógum á Goðaland og Þórsmörk. Þar uppi getur ríkt skaðræðisveður þó svo að veður í byggð sé skaplegt eða gott.
Fimmvörðuháls (um 1100 m) liggur nokkuð lægra en Eyjafjallajökull (1666 m) og Mýrdalsjökull (1480). Þá leitar loftið að auðveldustu leiðinni yfir fjallgarðinn sem er yfir Fimmvörðuháls. Þar þröngvar loftmassinn sér í gegn á miklum hraða. Þessum veðrum fylgir oft úrkoma, slydda eða snjókoma sem hefur kostað nokkur mannslíf í gegnum tíðina. Það úrkomumagn sem fellur á hálsinum er með því meira sem þekkist á Fróni eða um og yfir 4000 millimetrar að meðaltali frá 1931 til 1960. Á meðan var úrkoman í Reykjavík undir 600 millimetrum á sama tíma. Nokkrum sinnum hafa menn verið hætt komnir en guð og lukkan hafa verið þeim hliðholl á ögurstundu og leitt þá heila á húfi úr klóm vítisveðurs.
En þetta er sem betur fer bara önnur hliðin á þessu máli því í fögru veðri en fátt skemmtilegra en að leggja leið sína yfir Fimmvörðuháls og njóta náttúrufegurðar og stórkostlegs útsýnis yfir fósturjörðina svo langt sem augun sjá.
Yfir heildina held ég að óhætt sé að segja að veðurfar undir Eyjafjöllum sé mjög gott hlýtt og milt.
Heimild:
Þórður Tómasson, Veðurfræði Eyfellings, Bókaútgáfan þjóðsaga, Reykjavík, 1979.
Cookie Notice
This website uses cookies to enhance your user experience. By continuing to use this website you consent to the use of cookies.