Merkilegur kveðskapur um bæina undir Fjöllunum fyrr á öldum. Í þessari vísu eru hverjum og einum bæ gerð skil, þó mismikil. Skemmtilegt og fræðandi hverjum sem hana les.
Norðarlega eru Nauthús.
Drengir jafnan drekka úr krús.
Þrjár eru Merkur,
og þrættu ekki klerkur.
Dalur og Dalsel
og annar Dalur nærri.
Telja vil ég Tjarnir.
Traustur er hann Bjarni.
Í Hamragörðum býr fátækt fólk,
frúin gaf mér skyr í hólk.
Seljaland og Sandar
sínum görðum granda.
Mæli ég allt til Nýjabæjar.
Melar eru farnir.
Fátt er að telja Fit og Hala,
Sauðhúsvöllur er sæmileg jörð.
Í Hvammi vil ég skjala.
Á Núpi er svo nauðahvasst,
þar má kuldans kenna.
Ég nenni ekki að renna
yfir Skálanna þrenna
Holt er á hæðum,
hossar sér á glæðum.
Víkur sér til Vesturholta,
þar má haf á skæðum
með gögnum og gæðum.
Óljótt er Ormskot.
Vallatún og Gerðakot.
Kot eru í kransi,
kæran er í dansi.
Votsamt er í Varmahlíð,
voðalegt á Núpakoti,
svöðugt er í Svaðbæli,
hvasst er í Hlíð.
Steinar og staðirnir snjallir
standa þeir undir fjallinu bæirnir allir.
Berjanes og Borgarslot,
brjóta vötn á Ystabæli.
Merkilegt er á Minniborg,
Miðbæli og Leirum.
Skýri ég þar ekki af bæjunum fleirum.
Hólar og Hörðuskáli,
hark, hark í Klömbru.
Býð ég óð um Bakkakot,
kóngsjörð er Lambafell.
Sittu í friði silkilín,
syndalaus er höndin þín.
Seimgrundin í Selkoti
signi hana Drottinn,
hreppi hún allan heiðurinn
sæll sé hennar bóndinn,
og settu á hann hattinn.
Bruna sér á svellum
þeir á Rauðafellum.
þrætast á um þúfanreit
þeir á Hrútafellum.
Drangurinn í Drangshlíð
datt ofan fyrir Skarðshlíð.
Guðmundur lunti
og Jón bróðir hans,
dansa þeir í Drangshlíð
detta niður í Skarðshlíð.
Skart er í Skógum
með skríkjunum nógum.
Langa þulan aftur úr því
og allt austur í Mýrdal.
Skráð eftir frú Guðrúnu Runólfsdóttur á Fossi á Rangárvöllum fædd 10.9.1962. Guðrún lærði þuluna í Árkvörn í Fljótshlíð um 1877. Þula þessi hefur verið alþekkt undir Eyjafjöllum og víðar, en mjög í molum og orðaval nokkuð á reiki.
Um aldamótin 1600 gengu vitnisburðir um svonefnda Hólaodda í Hrútafellslandi, sem Eyvindarhólaprestur vildi halda undir Eyvindahóla. Féll dómur í því máli 1618. Má af því marka aldur þulunnar. Ekki er loku fyrir það skotið, að eitthvað kunni að hafa glatast úr henni á liðnum tíma, öðru kann að hafa verið aukið við hana.
Bærinn Melar mun hafa staðið á gljánni fram af Sandhólmanum undir Vestur-Eyjafjöllum. Sandblástur hefur eytt þar byggð. Hali eyddist af Markarfljóti á 17. öld. Um Nauthús segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín 1709: „Enginn veit þess fyrstu byggð eður eyðilegging“. Um marga Eyjafjallabæi, sem ekki eru nefndir í þulunni, er vitað, að þeir byggðust fyrst á 17. öld. Ber allt að þeim brunni, að þulan sé ort um aldamótin 1600 eða aðeins fyrr.
Heimildir:
Þórður Tómasson, Eyfellskar sagnir, Bókaútgáfa Guðjóns Ó. Guðjónssonar, Reykjavík, 1948.
Cookie Notice
This website uses cookies to enhance your user experience. By continuing to use this website you consent to the use of cookies.