Álfaaskurinn í Eyvindarholti

Hér er stutt og skemmtileg huldufólkssaga sem gerist í Eyvindarholti. Með góðu skal gott launað og sá sem gefur á það víst að fá það margfalt til baka. Þannig hugsaði fólkið í þessar. Nú svo er alltaf sælla að gefa en þiggja.


Húsfreyjan í Eyvindarholti undir Eyjafjöllum hafði ýmislegt saman við huldufólk að sælda og uppskar fyrir það blessun í búið. Í fjöldamörg ár var það föst regla í fjósinu í Eyvindarholti, að tómur askur stóð þar á steini milli hurða, þegar farið var úr því frá mjöltum. Hann var þá jafnan barmafylltur af nýmjólk og hvarf sporlaust í hvert sinn. Sami askurinn kom á hlóðasteininn í Eyvindarholti fyrir hverja hátíð, þegar verið var að sjóða hangikjötið. Ofna í hann var brytjað kjöt og flot, og að því búnu hvarf hann sinn veg. Oft sagði húsfreyjan í Eyvindarholti: „Það verður aldrei bjargarlaust í Eyvindarholti fyrir askinn þann arna.“ Þar var þá líka alltaf nóg að bíta og brenna.
Í 20 ár var sama fjósakonan í Eyvindarholti og sá ætíð með sóma um álfaaskinn. Elliburðir bægðu henni um síðir frá fjósverkum, og önnur vinnukona kom í stað hennar. Sú var alvörulítil og flasgjörn. Í fyrsta skipti, sem hún kom fram í fjósdyr með mjólkurskjóluna, gerði hún sér hægt um vik og spyrnti við álfaaskinum, svo hann hrökk út úr dyrum og brotnaði. Í sama vetfangi datt hún um fjósþröskuldinn og lærbrotnaði. Húsfreyjan sagði, að verk hennar hefði komið henni í koll, og ekki væri við betra að búast. Hún lét bæta askinn á loki og eyra, og lét huldufólkið það gott heita. Héldust þar gjafir og góð hót á báða bóga enn um skeið.
Skráð eftir frásögn frú Ingibjargar Guðmundsdóttur frá Gíslastöðum, vistkonu á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund, veturinn 1960 til 1961.

Heimild: Goðasteinn, 3. árg. 1. hefti, 1964, Þórður Tómasson skráði.

 

Cookie Notice

This website uses cookies to enhance your user experience. By continuing to use this website you consent to the use of cookies.

Back to top